Súkkulaði trufflur með lakkrís
Hinn fullkomni vegan ís
5th December 2018
Blómkálssteik með kókosrjómasósu og granateplum
17th December 2018
Show all

Súkkulaði trufflur með lakkrís

Deildu á facebook

DSC_0676

 

Þessar trufflur…

Hvað get ég sagt, þær eru trufflaðar!

Það er ekkert eins og að bíta í stökkan súkkulaðihjúp og finna þar silkimjúka súkkulaðifyllingu og örlítið af marsipanlakkrís fyrir miðju… úfff!

Þetta kalla ég hreint lostæti og ekta eitthvað til að narta í yfir hátíðirnar.

Allir sem hafa smakkað trúa ekki að þetta skyldi geta kallast hollt og sykurlaust. Það mætti líkja trufflunum við hráfæðisútgáfu af þrist.

 

DSC_0765

 

Ég held þú munir elska þessar trufflur, enda eru þær

  • Ljúffengar
  • Fágaðar
  • Fallegar
  • Saðsamar
  • Einfaldar og skemmtilegar

 

DSC_0587

 

Ég útbjó eins konar “álfaduft” úr náttúrulegum innihaldsefnum eins og jarðaberjum, túrmerik, matcha te og ekki skal gleyma 100%  lakkrís dufti sem tekur trufflurnar á næsta stig.

 

DSC_0620

 

Þær gera einnig fallegt konfekt til að gefa.

Ég mæli með að geyma trufflurnar í kæli, þar sem þær endast í u.þ.b. viku, og þú getur auðveldlega nælt þér í eina og eina trufflu! 

 

DSC_0824

 

Ekta súkkulaði trufflur með lakkrís

Uppskrift gefur 35-40 trufflur, fer eftir stærð

Súkkulaði trufflurnar:
1 bolli (130 gr) möndlur
1 ¼ bolli (150 gr) mjúkar döðlur
⅛ tsk vanilluduft eða 1 tsk vanilludropar
salt á hnífsoddi
smá vatn

¼ bolli (40 gr) kakó
rétt undir ¼ bolla (60 gr) kakósmjör

Marsipan lakkrísinn:
1/4 bolli afhýddar möndlur (ég notaði frá Rapunzel)
1 ½  msk hlynsíróp
⅛ tsk vanilluduft eða ¼ tsk vanilludropar
1 tsk hreint lakkrís duft (t.d gróft duft frá Lakrids by Johan Bülow sem fæst í epal)
10 klípur himalaya salt  eða í kringum 1 tsk
¼ tsk activated charcoal powder (valfjálst að nota þar sem þetta bætir bara svarta litinn)

Súkkulaðihjúpur:
75% dökkt súkkulaði sætað með kókospálmasykri eða annað náttúrulegt súkkulaði (t.d frá vivani)

Álfaduft:
pistasíur, túrmerik og sítrónubörkur
frostþurrkuð jarðaber
pistasíuhnetur og matcha duft
100% fínt lakkrís duft  (t.d fínt frá Lakrids by Johan Bülow sem fæst í Epal)
kókosmjöl eða kókoshveiti
hraun útgáfa með kakónibbum

Kvöldið áður:
Ef þið kaupið afhýddar möndlur fyrir lakkrísinn er óþarfi að leggja þær í bleyti.  Ef þið finnið ekki afhýddar möndlur má leggja venjulegar möndlur í bleyti í 5-8 klst eða yfir nóttu, og taka hýðið síðan af þeim. Sjá hér hvernig hýðið er tekið af þeim.

1. Byrjið á að leggja kakósmjör í vatnsbað svo það sé klárt fyrir trufflurnar

2. Útbúið lakkrísinn með því að mala afhýddu möndlurnar í blandara eða kaffikvörn í afar fínt mjöl. Bætið við restinni af hráefnum og vinnið þar til blandan myndar deigáferð. Setjið í skál og geymið í kæli á meðan þið útbúið súkkulaðitrufflurnar.

3. Fyrir súkkulaði trufflurnar má byrja á að mala möndlur í afar fínt mjöl fyrst, svipað og gert var með lakkrísnum. Bætið þá döðlum, vanillu og salti þar til silkimjúkt og kekkjalaust deig myndast. Bætið útí örlitlu vatni ef þið þurfið, c.a 1-2 msk. Kakó og brætt kakósmjör er næst bætt útí og hrært örlítið. Geymið í skál og kælið aðeins.

4. Takið næst1 tsk af súkkulaðideiginu og þekjið út flatt í lófa, myndið litla kúlu af lakkrísdeiginu (c.a ¼ tsk að stærð) og setjið ofaná súkkulaðideigið, rúllið upp og leggið til hliðar. Kælið í c.a. klst eða yfir nóttu.

5. Bræðið súkkulaði og gerið duftin ykkar klár ef þið notið þau.

6. Leggið bökunarpappír á eldhúsborðið. Hafið brædda súkkulaðið til hliðar og duft í skálum. Dýfið súkkulaði trufflunni í súkkulaðið, veiðið uppúr með skeið og rúllið uppúr því dufti sem þið viljið. Leggið á bakka með hreinum bökunarpappír og setjið það síðan í kæli eða frysti. Kælið í amk 1-2 klst áður en borið er fram!

 

DSC_0756

 

Ég vona að þú prófir og ekki gleyma að segja mér hvernig smakkast hér undir í spjallinu eða tagga mig undir @lifdutilfulls á instagram!

Endilega deildu síðan á facebook ef þessar vekja lukku hjá þér!

Á meðan ætla ég að næla mér í eina trufflu…

Gleðilega hátíð elsku vinir.

Heilsa og hamingja

jmsignature

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *