Ég verð að deila uppskriftinni að þessum grænkálsvefjum með þér!
Einfalt, hreint og fljótlegt er það sem ég elska í matargerð.
Þetta eru eflaust fljótlegustu og bragðbestu grænkálsvefjur sem ég hef gert, enda hef ég gert þær óteljandi oft. Þær taka innan við tvær mínútur að setja saman og gefa þér góða fyllingu sem endist fram eftir degi.
Það sem er enn betra er þær hjálpa til við að slá á sykurþörfina og jafna blóðsykur.
Grænkál
Ég borða oftast grænkál á hverju degi enda er það næringarríkast af öllu grænu grænmetinu. Það hefur til dæmis tíu sinnum meira næringargildi en iceberg kál. (Þið getið lesið meira um það hér og hér ) Grænkál mætti því kalla algjöra ofurfæðu, enda er það ríkt af kalki, magnesíum, andoxunarefnum, trefjum (sem bæta meltingu) ásamt B6 og járni.
Grænkál er einnig talin ein besta uppspretta K vítamíns (sem gegnir stóru hlutverki í storknun blóðs), er sérlega próteinríkt og á sama tíma lágt í kolvetnum sem gerir það góða hollustu enn betri. Allt grænt grænmeti þykir mér létta lund og ég finn að mér líður vel af því að innan sem utan. Svo grænkálið geymist lengur nota ég gott ráð hér sem má sjá hér.
Tahini
Tahinidressingin mín sem ég nota á vefjurnar hefur notið mikilla vinsælda hjá þeim sem fylgjast með mér á Snapchat (lifdutilfulls) enda er engin ástæða að spara hana. Ef þú þú hefur ekki notað tahini áður þá er það smjör úr maukuðum sesamfræjum sem fæst í flestum matvöruverslunum nú orðið og bragðast dásamlega. Tahini er ríkt af magnesíum og góðri fitu sem hjálpar að slá á sykurlöngun.
Grænkálsvefjur með dásamlegri tahini dressingu sem tekur tvær mínútur að gera!
Vefjur
2-4 grænkálsblöð (fer eftir stærð)
1/2 gúrka
1/2 bolli rauðkál
Lífrænt epli
Fersk mynta
Sítróna til að kreista yfir
Tahinidressing:
1 msk tahini
1-2 msk eplaedik
1-2 msk sítrónusafi
Eplin og myntan gera salatið virkilega ferskt og sætt. Mér finnst æðislegt að bæta við kjúklingaspírum eða hemp fræjum fyrir auka prótein.
Fleiri uppskriftir eru væntanlegar!
Vissir þú að það styttist í Sykurlausa áskorun! Það kostar ekkert að taka þátt í 14 daga áskoruninni og þú færð nýjar uppskriftir sem slá á sykurlöngunina. Smelltu hér til að skrá þig og þá færð þú tilkynningu þegar hún hefst í ágúst!
Deildu með mér:
Borðar þú grænkál og ef svo er hvernig notar þú grænkálið?
Segðu mér frá því í spjallinu hér að neðan.
Ef þú átt vinkonu sem berst við sykurlöngun, smelltu á like og deildu uppskriftinni með henni á Facebook.
Heilsa og hamingja
Júlía heilsumarkþjálfi
p.s Fylgstu með á Snapchat: lifdutilfulls