Óttastu að þyngjast yfir hátíðirnar? Lestu þetta…
26th November 2019Jólasmákökurnar mínar
11th December 2019Óttastu að þyngjast yfir hátíðirnar? Lestu þetta…
26th November 2019Jólasmákökurnar mínar
11th December 2019–jólauppskriftir!
Ég er búin að bíða alltof lengi eftir því að geta loksins gert mínar þrjár uppáhalds jólauppskriftir!
Súkkulaðitrufflu konfektið mitt, kókosísinn góði og blómkálssteikin ljúfa!
Í dag deili ég með ykkur þessum jólauppskriftum mínum sem voru birtar í jólablaði Morgunblaðsins á sínum tíma! Allar uppskriftirnar eru vegan, sykurlausar og glúteinlausar.
Bíðið sko spennt eftir því að prófa og ekki gleyma að skrifa mér í spjallinu hér að neðan hvernig þær smakkast!
–j-j
–
Sem krakki var ég alltaf mjög hrifin af lakkrís og þegar við fórum í leikhús gaf amma okkur lakkrís í poka! En lakkrís er auðvitað fullur af sykri svo það var mikil áskorun að gera hollari útgáfu af honum. Ég gafst þó ekki upp og úr urðu þessir himnesku konfektmolar! Það er sannarlega engu líkt að bíta í stökkan súkkulaðihjúpinn og finna þar silkimjúka súkkulaðifyllingu og örlítið af marsipanlakkrís fyrir miðju… úfff! Þetta er smá handavinna en gott konfekt krefst ástar og umhyggju!
–
Ekta súkkulaðitrufflur með lakkrís
Uppskrift gefur 35-40 trufflur, fer eftir stærð.
–
Súkkulaði trufflurnar:
1 bolli (130 gr) möndlur
1 ¼ bolli (150 gr) mjúkar döðlur (mikilvægt að döðlurnar séu mjúkar)
⅛ tsk vanilluduft eða 1 tsk vanilludropar
salt á hnífsoddi
smá vatn
¼ bolli (40 gr) kakó
rétt undir ¼ bolla (60 gr) kakósmjör (t.d frá the Raw chocolate company)
–
Marsipan lakkrísinn:
¼ bolli afhýddar möndlur (þær verða að vera afhýddar)
1 ½ msk hlynsíróp
⅛ tsk vanilluduft eða ¼ tsk vanilludropar
1 tsk hreint lakkrísduft (t.d gróft duft frá Lakrids by Johan Bülow sem fæst í Epal)
10 klípur himalaya salt (í kringum 1 tsk)
¼ tsk activated charcoal duft (valfjálst að nota þar sem þetta bætir bara svarta litinn. Fæst í Heilsuhúsinu)
–
Súkkulaðihjúpur:
75% dökkt súkkulaði sætað með kókospálmasykri eða annað lífrænt dökkt súkkulaði (t.d frá Vivani)
–
Álfaduft:
Gult: pistasíur, túrmerik og sítrónubörkur
Rautt: frostþurrkuð jarðaber
Grænt: pistasíuhnetur og matcha duft
Svart: 100% fínt lakkrís duft (t.d fínt frá Lakrids by Johan Bülow sem fæst í Epal)
Hvítt: kókosmjöl eða kókoshveiti
Hraun: kakónibbur
–
Kvöldið áður: Ef þið kaupið afhýddar möndlur er óþarfi að leggja þær í bleyti. Ef þið finnið ekki afhýddar möndlur má leggja venjulegar möndlur í bleyti í 5-8 klst eða yfir nóttu, og taka hýðið síðan af þeim. Sjá hér hvernig hýðið er tekið af þeim.
Fyrir lakkrísinn: Byrjið á að leggja kakósmjör í vatnsbað svo það sé klárt fyrir trufflurnar. Útbúið lakkrísinn með því að mala afhýddu möndlurnar í blandara eða kaffikvörn í afar fínt mjöl. Bætið við restinni af hráefnum og vinnið þar til blandan myndar deigáferð. Setjið í skál og geymið í kæli á meðan þið útbúið súkkulaði trufflurnar.
Fyrir súkkulaði trufflurnar: Byrjið á að mala möndlur í afar fínt mjöl fyrst, svipað og gert var með lakkrísnum. Bætið þá döðlum, vanillu og salti þar til silkimjúkt og kekkjalaust deig myndast. Bætið út í örlitlu vatni ef þið þurfið, c.a. 1-2 msk. Kakói og bræddu kakósmjöri er næst bætt útí og hrært örlítið. Geymið í skál og kælið aðeins.
Fyrir álfaduftin: Malið álfaduft að eigin vali (gult, rautt, grænt, svart, hvítt eða hraun) og geymið í djúpum disk eða skál til að velta súkkulaði trufflum uppúr.
Setjið allt saman: Takið næst 1 tsk af súkkulaðideiginu og þekið út flatt í lófa, myndið litla kúlu af lakkrísdeiginu (c.a ¼ tsk að stærð) og setjið ofaná súkkulaðideigið, rúllið upp og leggið til hliðar. Kælið í c.a. klst eða yfir nóttu. Bræðið súkkulaði og gerið duftin ykkar klár ef þið notið þau. Leggið bökunarpappír á eldhúsborðið. Hafið brædda súkkulaðið til hliðar og duft í skálum. Dýfið súkkulaði trufflunni í súkkulaðið, veiðið uppúr með skeið og rúllið uppúr því dufti sem þið viljið. Leggið á bakka með hreinum bökunarpappír og setjið það síðan í kæli eða frysti. Kælið í amk 1-2 klst áður en borið er fram!
–
–
–
,,Steikin” mín er innblásin af líbönsku mataræði og ferðalögum mínum um Ísrael og Indland. Falleg, holl og ómótstæðilega góð! Mér finnst alveg ómissandi að fegra hana með granateplunum.
Blómkálssteik með kókosrjómasósu og granateplum
–
1 blómkálshaus
1 msk ólífuolía eða 1 msk vegan smjör brætt
1 tsk sítrónusafi
1 tsk hlynsíróp
–
Kryddblanda
1 tsk salt
½ tsk malað kúmen
½ tsk kóríander
kardimommuduft á hnífsoddi
múskat á hnífsoddi
–
Sósa
3/4 bolli kókosmjólk úr dós (eða notið Nush möndluost eða Nush kasjúhnetujógúrt án bragðs sem fæst t.d. í Nettó fyrir örlítið þykkari sósu)
1 msk hvítt tahini
örlítið af sítrónubörk
örlítill sítrónusafi
salt og pipar eftir smekk
–
Til skreytingar: Granatepli, möndluflögur, sítrónubörkur, fersk steinselja.
Hitið ofninn við 190°C. Fjarlægið lauf blómkálsins og skerið stilkinn í burtu þannig að blómkálið geti staðið upprétt. Fyrir enn sterkara bragð má skera blómkálið í 2-4 hluta (fer eftir stærð blómkáls) og tvöfalda magn kryddblöndunar.
Setjið blómkálið í eldfast mót, hrærið kryddblönduna saman í skál og penslið yfir. Hyljið mótið með loki eða álpappír og eldið í 40-50 mín ef þið eldið heilt blómkál eða 20-30 mín ef þið skerið blómkálið. Eldið aðeins þar til miðja blómkálsins er orðin mjúk og hægt er að stinga hníf í gegn. Þá er álpappírinn tekinn af og blómkálið eldað í 5-10 mín til viðbótar eða þar til gyllt og örlítið stökkt að utan.
Útbúið á meðan sósuna með því að blanda öllu saman í skál eða blandara. Geymið í kæli.
Berið blómkálið fram með sósunni, granateplum, ristuðum möndluflögum, sítrónubörk og ferskri steinselju. Frábær jólasteik eða sem meðlæti.
–
––
–
Ég er mikil ískona og í gegnum árin hef ég gert ýmsar tilraunir þar til ég gerði þessa sem er að mínu matin fullkomin! Svo ekki sé minnst á heimferð frá USA þar sem ég dröslaðist heim með heila ísvél í pakkfullri handfarangurstösku. Þetta var ekki síðasta ísvélin sem ég keypti mér get ég sagt þér… því þessi brann með látum þegar ég asnaðist til að stinga henni í samband án straumbreytis eftir aðeins nokkurra mánaða notkun. Blessuð sé minning hennar.. Seinni ísvélin kom svo með vinafólki að utan ári seinna og stendur hún enn hnarrreist í eldhúsinu. Ég hef ekki klikkað á straumbreytinum aftur og ætla mér ekki að gera það!
Það er eitthvað svo jólalegt við heimagerðan ís! Það má bæta á hann allskonar kurli og sósu að eigin vali. Ég nota örvarrót í ísinn sem fæst í versluninni Bændur í bænum á Grensásvegi.
–
Hinn fullkomni vegan ís
–
1 kæld kókosdós
1/4 bolli hlynsíróp
1/2 tsk örvarrót (arrowroot) eða 1 tsk maísterkja
1 tsk vanilludropar
1/4 tsk vanilluduft
–
Súkkulaðisósa
2 msk kakóduft
4 msk kókospálmanektar/hlynsíróp
2-4 dropar stevia
2 msk kókosolía, brædd í vatnsbaði og 1 msk vatn
salt eftir smekk
–
Gott með ísnum:
Myntusúkkulaði (t.d. frá Green&Black’s organic) og hindber
Lakkrísduft
Saltkaramella. Notið þá karamellusósu frá Snickerskökunni í uppskriftabók Lifðu til fulls og bætið við súkkulaðispæni og söxuðum möndlum. Þetta er hreint lostæti
Klassísk heit súkkulaðisósa og jarðaber
Súkkulaðisósa og mórber
Hvítt súkkulaði og rabbabari
–
Kvöldið áður: kælið kókosmjólkina og ef þið eigið ísvél kælið þá ílátið.
Hrærið öll innihaldsefnin saman í blandara og vinnið þar til silkimjúkt. Smakkið til og bætið meiri vanillu við ef þið viljið meira vanillubragð en hlynsíróp ef þið viljið ísinn sætari.
Ef þið notið ísvél má setja ísblönduna í ísvélina samkvæmt leiðbeiningum vélarinnar og láta vinna í kringum 20 mín. Þegar ísinn er klár er hann settur í stál frystibox eins og brauðform.
Takið ísinn út og leyfið að standa við stofuhita í 5-10 mín áður en þið berið hann fram.
Ef þið eigið ekki ísvél má setja ísinn í stálílát og frysta. Fyrir bestu niðurstöður og rjómakenndan ís má taka ísinn úr frysti og hræra í honum í forminu og setja aftur í frysti. Þetta er gert á klukkustundarfresti næstu 4-6 tíma. Þetta hleypir lofti að ísnum sem hjálpar til við að gera hann rjómakenndan.
Berið fram eins og ykkur þykir best og leyfið hugmyndafluginu að ráða. Til að gera súkkulaðisósuna setjið þá hráefnin í blandara og vinnið á lágri stillingu þar til silkimjúkt. Bragðið og bætið við sætu eftir þörfum. Hitið upp í potti eða notið sem kalda sósu.
–
Ég vona að þið prófið þessar uppskriftir elsku vinir og hafið það huggulegt og hollt yfir jólin!
Látið vita í spjallinu ef þið ætlið að prófa og ef þið prófið, látið vita hvernig smakkst!
Og endilega deilið á Facebook og Instagram.
–
–
Heilsa og hamingja,
Hreint mataræði þarf ekki að vera flókið! Langar þig að læra meira?
Skráðu þig á ókeypis net-fyrirlesturinn minn “3 leiðir til þess að losna við sykurþörfina og öðlast orku náttúrulega”.
Gegn skráningu færðu líka aðgang að spennandi uppskrift sem slær á sykurþörf og ásamt öðrum ráðum sem bætir mataræði þitt til muna!