Indversk vefja með Yesmine
Sykurlaus myntu- og kakó smoothie
22nd June 2017
3 sumarsalöt og dressingar sem þú verður að prófa!
4th July 2017
Sykurlaus myntu- og kakó smoothie
22nd June 2017
3 sumarsalöt og dressingar sem þú verður að prófa!
4th July 2017
Show all
Deildu á facebook
Facebook

Indversk vefja með Yesmine

Mér finnst alltaf svo gaman að heyra og sjá hvað aðrir kokkar eru að gera, það veitir mér innblástur og svo er alltaf gaman að fá girnilegar hugmyndir til að prófa sig áfram með.

Ég fékk Yesmine vinkonu mína til að spjalla aðeins um hvað hún hefur verið að brasa nýlega bæði í eldhúsinu og ræktinni. Hún var svo yndisleg að deila líka með mér uppskrift af bragðmiklum indverskum vefjum, en hún er algjör snillingur í indverskri matargerð.

1015431_10152556786035760_163278439_o

Mynd: Gassi Olafsson


Hvað ert þú að gera þessa dagana?

Ég er aftur farin að vinna sem einkaþjálfari en ég lærði einkaþjálfun og næringarfræði í Svíþjóð og hef verið einkaþjálfari í mörg ár. Það hentar frábærlega með matreiðlsunámskeiðunum og hinum hliðarverkefnunum mínum og auðvitað heldur mér í formi!
Eins og er er ég líka að vinna að hugmyndum að nýjum matreiðsluþætti. Það er svolítið síðan síðast en ég er alltaf að skora á sjálfa mig og hef því nóg að gera.


Hvenær kviknaði áhuginn á indverskri matargerð?

Hún fylgdi mér eiginlega bara og það var eins og ég hefði ekkert val um neitt annað en að læra að elda indverskan mat! Ég ætlaði mér aldrei að verða matreiðslukennari eða skrifa bækur en ég varð bara ástfangin af kryddunum. Ég held líka að þetta sé eitthvað í blóðinu.

Hvað finnst þér lykilatriði í góðum indverskum mat?

Góð hráefni og fersk krydd. Að gefa sér góðan tíma og njóta eldamennskunnar til að ná fram sem mestu bragði.

Hvaða eldhústóls gætir þú ekki verið án?

Matvinnsluvélar og mortels

Fylgirðu einhverju sérstöku varðandi mataræði?

Ég fylgi bara hreinu mataræði og helst plöntumiðuðu.

Hvernig heldurðu þér í formi? Hvernig æfir þú og hversu oft?

Ég æfi 5 sinnum í viku ef ég er ekki að elda. Ef ég er að elda nota ég það oft sem æfingu bara! Að vera kokkur er mjög líkamleg vinna. Annars er ég mjög hrifin af Boot Camp og hef verið í því í nokkur ár.

Hvað færð þú þér oftast..

Í morgunmat: Egg og avócado, reyktan lax

Í hádegismat: Ég bý mér til salat úr því sem til er í ísskápnum

Í millimál: Hnetur, egg, Mary’s gone crackers með geitaosti, bláber, kíví, epli

Í kvöldmat: Lax, sætar kartöflur eða sukinni núðlur

Uppáhalds eftiréttir?

Súkkulaðikaka með indversku chili og kardimommum

Hvað er framundan hjá þér þessa dagana? Hvernig getum við fylgst með þér?

Eins og er getið þið fylgst með mér á Instagram og FB, svo er ég að vinna í að byrja með blogg;)

17492281_10156011411275760_6172827096614812042_o (1)

Indversk vefja að hætti Yesmine

Kókos Dhal

250g rauðar linsubaunir

400 ml kókosmjólk

1 ½ msk ISIO4 olía eða 1 msk ghee

2 gulir laukar, fínt skornir

2 rauðir chili, fínt skornir með eða án fræja

1 tsk túrmerik

400g niðursoðnir saxaðir tómatar eða 4 meðalstórir tómatar skornir í litla bita

Sjávarsalt

1. Skolið linsubaunirnar og setjið til hliðar.

2. Hitið 1 ½ msk af olíu (eða 1 msk ghee) á pönnu og steikið laukana ásamt chili í 1 til 2 mínútur.  

3. Bætið túrmerik út á pönnuna og hrærið vel  í 30 sekúndur, bætið þá linsubaunum út í.

4. Hrærið kókosmjólk varlega samanvið ásamt tómötum og fáið suðuna upp.  

5. Látið malla í 20 mínútur eða þangað til linsubaunirnar eru eldaðar í geng og líta hálf maukaðar út.  Hér er gott að nota töfrasprota en passa að halda áferðinni samt grófri.  Saltið eftir smekk.

6. Takið af hitanum og leggið til hliðar.

Auka blanda

1 msk ISIO4 olía eða ghee

1 rauðlaukur fínt skorinn

2 tsk brún sinnepsfræ

1 msk þurrkuð karrýlauf

1. Hitið olíu eða ghee á pönnu og steikið laukinn á meðal hita í 2 mínútur.

2. Bætið varlega karrýlaufum og sinnepsfræjum út á pönnuna. Hrærið.

3. Passið að sinnepsfræin geta „poppast“ í allar áttir.  Ef það gerist takið þá strax af hitanum því þá er þetta örugglega tilbúið

4. Þegar blandan er tilbúin, blandið henni við maukuðu linsubaunirnar. Það breytir bragðinu til hins betra og þá munt þú eiga nóg til afgangs næsta dag (blandan er góð með soðnum kartöflum t.d.)

Gulróta “guacamole”

1 stór gulrót

1 mjúk daðla

1/2 rauðlaukur

1 hvítlauksgeiri

½ avócadó

Handfylli af kóríander (ca. 10 gr)

Jalapeno úr dós, ca. 1-2 sneiðar eftir smekk

Smá ólífuolía

1. Hrærið öll innihaldsefnin saman í blandara

2. Notið pítubrauð, tortillu eða ríspappír sem grunn

3. Fyllið grunninn með því að setja fyrst salat, gulróta guacamole og svo kókos dhal.

4. Skreytið með radísuspírum

Ég mæli sko með því að prófa þessar vefjur! Fullkomnar í hádegisverð eða sem fljótlegan kvöldverð!

Ég vil þakka Yesmine fyrir þetta spjall og hlakka til að sjá hvað er í bígerð hjá henni.

Deilið endilega greininni á Facebook:)

Heilsa og hamingja

Hreint mataræði þarf ekki að vera flókið! Langar þig að læra meira?

Skráðu þig á ókeypis net-fyrirlesturinn minn “3 leiðir til þess að losna við sykurþörfina og öðlast orku náttúrulega”.

Gegn skráningu færðu líka aðgang að spennandi uppskrift sem slær á sykurþörf og ásamt öðrum ráðum sem bætir mataræði þitt til muna!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *