Mataræði og menning í heimsreisu minni (fyrri hluti)

Mataræði og menning í heimsreisu minni (fyrri hluti)

DSC_3222
Náttúrulegar leiðir til að bæta svefn
7th November 2017
DSCF7594
Síðari hluti heimsreisu minnar og jólatilboð!
21st November 2017
Sýna allt

Mataræði og menning í heimsreisu minni (fyrri hluti)

DSCF3347s
Deildu á facebook

Mörg ykkar fylgdust með ferðalögum mínum í sumar á samfélagsmiðlum. Við hjónin fórum í ævintýraferð til 9 landa í Evrópu og Asíu á 10 vikum.

Þetta var í alla staði skemmtilegasta og eftirminnilegasta sumar hingað til. Mig langar þessa viku og þá næstu að segja þér aðeins betur frá því hvert við fórum, matnum sem við kynntumst og ráðum sem geta hjálpað þér þegar þú ferðast næst.

Bréfið í dag og næst verður því aðeins lengra og myndskreyttara en vanalega en næstu vikur þar á eftir munu taka við hefðbundnari fréttabréf þar sem ég mun svo senda þér góðar jólauppskriftir og fleira tengt árstíðinni.

Þegar við settum fyrir okkur að halda í ferðalag var fyrst að velja áfangastaði. Mig hafði lengi langað til Balí, Indlands og Grikklandseyja vegna fegurðar, menningu og matarhefða þeirra þjóða. Maðurinn minn hafði helst Egyptaland og Ísrael í huga og restin af ferðinni var svo ákveðin í sameiningu. Hver áfangastaður bauð uppá ævintýri fyrir bæði sálina og bragðlaukana og ég kom heim með langan lista af uppskriftahugmyndum.

Það gæti komið mörgum (þó kannski ekki ykkur!) á óvart að í gegnum ferðina sneiddi ég framhjá glúteini, mjólkurvörum, eggjum, kjöti og hvítum sykri eftir bestu getu. Kom það aldrei niður á upplifun minni og ég gat notið mín í hvaða landi sem er.

Í sumum löndum fylgdu fleiri áskoranir en öðrum hvað varðar hollt mataræði en ég náði alltaf að redda mér með sóma. Notaði ég vinkonu mína hana Google, Tripadvisor og einnig Happycow.net til að leita uppi góða veitingastaði á hverjum stað og oft fékk ég líka góð meðmæli frá hótelunum. Allar upplýsingar setti ég alltaf í appið Onenote sem auðveldaði okkur að nálgast þær seinna meir í símanum. Notuðum við Onenote einnig til að geyma allar ferðaupplýsingar okkar eins og afrit af hótelbókunum, ferðaáætlanir og fleira til, sem var algjör snilld. Mæli með því.

Aukalega við hollt mataræði hreyfði ég mig daglega um morguninn (fyrir utan þá daga sem við vorum að fara í næturflug). Hvort sem hreyfingin var 10 mín eða klukkustund kom ég henni alltaf fyrir enda hluti af minni daglegri næringu, útrás og vellíðan. Að halda í hollt mataræði og reglusama hreyfingu á meðan þú ferðast veltur einfaldlega á því hugarfari sem þú setur þér. Ef þú segir að það sé vesen verður það vesen en ef þú ætlar þér að gera þitt besta þá gengur það upp.

Hér fyrir neðan deili ég með ykkur því helsta úr hverju landi fyrir sig og helstu veitingastöðum sem ég get mælt með.

Ítalía, Róm

DSCF2079

Róm var ofboðslega rómantísk. Listin allt í kring var stórfengleg, menningarlífið var lifandi og maturinn!!! Myndin hér að ofan er tekin rétt fyrir utan hið fræga Colosseum.

Þar sem Róm var fyrsta landið sem við heimsóttum sprengdum við skalann af skoðunarferðum, sem var samt mjög gaman enda rosalega margt áhugavert að skoða í Róm. “Besta fjárfestingin í sumar” sem við hjónin grínumst með eftir ferðina var 2×6000 kr rútumiðar í svona túristarútum um borgina. Frábær leið til að kynnast borginni og hoppa inn og út eftir hentugsemi hugsuðum við en eftir 25 mín í rútunni áttuðum við okkur á því að þetta var ekki málið. Frekar seinlegt, leiðigjarnt og óbærilegur hiti (á efri hæð rútunnar) og einfaldlega ekki fyrir okkur. Góð lexía.

DSCF0883

Mér fannst lítið mál að finna góðar glútenfríar pizzur enda var Celiac festival nýlega haldin í Rómarborg, en Celiac er glútenofnæmisjúkdómur svo margir veitingastaðir buðu uppá góða kosti. Mér þótti þessir staðir bestir:

DSCF0995

DSCF0997

DSCF0996

Pizza di Trevi, súrdeigspizzur eða glútenfríar. Maðurinn minn sem er mikill pizzamaður sagði þetta bestu pizzur sem hann hefur hefur smakkað í heiminum. Staðurinn er við Fontana di Trevi gosbrunninn fræga.

DSCF1341

Hotel Raphael, hótel í hjarta miðborgarinnar með veitingastað úti á efstu hæð og yfirsýn yfir alla borgina. Allt er lífrænt, vegan (fyrir utan mozzarella því þetta er jú Ítalía), án unnins sykurs og glútenfrítt. Þessi staður er í dýrari kantinum en æðislegur í alla staði, það get ég sagt. Við vorum búin að bóka gistingu okkar þegar við uppgötvuðum þennan stað en næst þegar ég kem til Rómar myndi ég vilja gista hér.

DSCF2487smaller

Ecru, æðislegur hráfæðisveitingastaður. Við pöntuðum nokkra rétti til að smakka, allt æðislegt og svo keypti ég sitthvað til að hafa með í flug.

DSCF2520s

Grezzo, vegan ís falinn í krúttilegri götu rétt hjá Colosseum. Algjörlega besti vegan ísinn í allri ferðinni og sá sem ég hef einfaldlega smakkað. Ég myndi fara aftur til Rómar bara fyrir þennan ís! Hann var svo góður að ég krafðist þess að fara aftur síðasta daginn okkar.

DSCF0594s

Venci, Súkkulaðibúð sem er algjör skylda að fara í. Hún er ekki sykurlaus en ef þið veljið dökkt súkkulaði eða 85% eða hærra er sykurmagnið minna.

Staður sem ég myndi ekki endilega fara á aftur:

Mama´s eat, glútenfrír pizzustaður. Smá spotti í burtu frá aðalsvæðinu í Róm og pítsudeigið svolítið mjúkt og deigkennt.

Varist einnig staði sem segja “best pizza in Rome” það eru yfirleitt túristastaðir og því betra að kíkja á tripadvisor.com fyrir meðmæli þar sem allir staðirnir þarna þykjast vera með bestu pizzurnar eða pastað.

Grikkland, Aþena og Mykonos

DSCF2965sDSCF2808

Við stoppuðum tvær nætur í Aþenu og fórum upp Akrópólis og skoðuðum okkur um í grendinni. Síðan héldum við til Mykonoseyju í fimm nætur. Ohh hvað við hjónin urðum ástfangin af Mykonos. Við fórum um eyjuna á vespu mestmegnis af tímanum og nutum þess að vera í fallegu hvítu húsi undir bláum himni og sjó. Hrein fegurð og paradís.

DSCF3605

Afslöppun í Kensho hóteli, Mykonos.

DSCF3347s

Morgunverður að hætti Kensho hótelsins á Mykonos.

Við gistum á Kensho hóteli í Mykonos sem ég mæli eindregið með. Þetta var eitt af þeim hótelum sem við tölum enn um. Maðurinn minn getur ekki hætt að tala um bananamúffurnar sem voru í morgunverðarhlaðborðinu. Þjónusta þeirra er fyrsta flokks, frábær líkamsræktarstaða og spa, staðsetningin á rólegum stað á eyjunni rétt hjá strönd. Hótel fílingurinn alveg í takt við minn smekk.

DSCF3183ss

Í næstu ferð til Grikklandseyja förum við klárlega aftur til Mykonos og munum einnig stoppa við í Santorini.

Það er mjög auðvelt að velja holla fæðu í Grikklandi. Grísk salöt með geitaosti, fiskur, tahini og hummus á allt heimastað á mörgum veitingastöðum. Mæli ég með þessum stöðum hvað helst:

DSCF2607s

Juice Roots, Krúttilegur juice staður í Aþenu, rétt hjá Akrópólis (og við hliðin á safninu stóra). Við fórum tvisvar sinnum aftur eftir að við uppgötvuðum staðinn.

DSCF3202s

Scorpios, mjög hipp og kúl staður í Mykonoseyju með frábæru útsýni yfir hafið. Sólsetrið er unaðslegt hérna. Veitingastaðurinn er úti rétt við sjóinn og skartar frábærri þjónustu og æðislegum mat! Ég mæli mikið með þessum stað.

Bowl, sætur juice og smoothie staður á Mykonoseyju sem var rétt hjá hótelinu okkar. Hægt að panta salöt, vegan ís, acai skál og meira. Eigendurnir voru farnir að þekkja okkur enda komum við nær daglega fyrir smoothie á vespunni okkar.

Egyptaland, Kaíró

DSCF4352

3 daga stopp til að skoða píramídana. Það var stórfenglegt að fara þangað og sjá píramídana og að fá að fara inn í þá. Sphinx var líka heillandi. Við gistum á hóteli í 5 mín göngu frá píramídunum sem var mjög þægilegt.

DSCF4550

Kvöldmatur a la Júlía, uppi á hótelherbergi.

Mataræðið var ekki svo auðvelt í Egyptalandi vegna hreinlætis. Margir verða veikir af vatninu og matnum í Egyptalandi og mikilvægt að borða þar þú getur verið fullviss um að ekki vanti neitt upp á hreinlætið. Ég hafði með mér sitthvað frá Grikklandi eins og tahini og glúteinfrítt kex sem ég fann og svo keypti ég nokkra hluti í matvöruverslun rétt hjá. Svo skolaði ég sérstaklega vel af því með flöskuvatni inná hótelherberginu. Sökum þess að við stoppuðum stutt að þá borðuðum við mikið á hótelinu sem við gistum á.

Ísreal, Jerúsalem

DSCF5355

Jerúsalem var mjög vingjarnleg borg, við gistum á frábærum stað sem var nálægt gömlu borginni þar sem Jesús gekk um og kenndi. Við fórum á á flesta þekkta staði þar í kring og mörg falleg og kærkomin augnablik í minningunni þar. Mjög rík saga á þessum slóðum og gaman að fara í hinar ýmsu skoðanaferðir með leiðsögumanni.

Við kíktum einnig í dagsferð til Betlehem og fórum í Dauðahafið þar sem við flutum um á söltum sjónum, það útaf fyrir sig var geggjuð upplifun.

DSCF5222

DSCF5266

Í gyðingatrú má ekki blanda saman mjólkurvörum og dýrakjöti og mikið um grænmetismat. Því var lítið mál að finna góðan veitingastað að borða.Ég hafði hreinlega of marga í huga þarna og erfitt að velja á tímabili. Við fórum á bæði ekta Ísraelska veitingastaði í bland við aðra nútímalegri staði, sem var skemmtileg blanda.

Ég kynntist hreinlega nýrri matargerð sem ég varð ástfangin af og álit mitt á hummus komst á æðra stig.

Það voru svo margir góðir staðir í Ísreal en hér eru helstu:

DSCF5160

Yehuda Market (shuk), matarmarkaður með litlum útibúðum bænda og veitingastaða. Algjör skylda að fara og fórum við oftar en ég get talið á markaðinn, bæði að kaupa eitthvað til að hafa meðferðis sem snarl eða til að smakka vegan ís, ekta falafel, hummusa og fleira. Flest kvöld nutum við þess að borða svokallaðan götumat enda góð leið til að kynnast matarmenningunni.

Ha Agas 1, lítill vegan veitingastaður með frábærum hummus í Shuk markaðinum. Við vorum smá tíma að finna staðinn en hann var þarna inná milli alls. Það var ein stúlka sem afgreiddi, þjónustaði og eldaði svo þjónustan var hæg en við nutum okkar og maturinn var virkilega góður.

DSCF5449

Eucalyptus, einn helsti staðurinn á Tripadvisor í Jerúsalem og af góðri ástæðu. Maturinn og þjónustan var æðisleg og hef ég aldrei fengið jafn góða franska súkkulaðiköku og ís á ævinni (og í þokkabót var hún vegan, glútenlaus og með mjög lítinn sykur (var mér sagt)).

Ég vona að sögurnar gefi þér betri hugmynd um við hverju megi búast á hverjum stað fyrir sig og gefi innblástur í næsta ferðalag þitt. Fylgstu svo með í næstu viku fyrir síðari helminginn af ferðalagi mínu í sumar og þeim 5 löndum sem eftir eru.

Ég mæli svo eindregið með að kíkja á jólatilboð Lifðu til fulls sem við vorum að opna fyrir í dag! Flott tilboð á Lifðu til fulls bókinni og sykurlausu eftirrétta myndbandsnámskeiði ofl.

Kíktu hér á jólatilboð Lifðu til fulls.

Heilsa og hamingja,
jmsignature

print

Skráðu þig fyrir vikuleg hollráð að aukinni orku - það er ókeypis!

Fáðu strax „Sektarlaus sætindi fyrir mjórra mitti” rafbók!

Skildu eftir athugasemd

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegt að fylla út reiti merkta *

Pin It on Pinterest

Share This